Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum
  • Handrit
  • Myndir
    • Myndir af handritum
    • Myndir af apógröfum
  • Handritin til barnanna
  • Helgafell
  • Meira
    • Kennsluefni >
      • Sýnisbók íslenskrar skriftar
    • ​​Iceland Legal Manuscripts Research Network
    • Orð og tunga >
      • Orð og tunga 6
      • Orð og tunga 7
      • Orð og tunga 11
      • Orð og tunga 12
      • Orð og tunga 13

Konungsbók Snorra-Eddu


Konungsbók Snorra-Eddu, GKS 2367 4to, er íslenskt handrit frá upphafi 14. aldar. Það geymir Eddu Snorra Sturlusonar og er það handrit sem flestar útgáfur Eddu byggjast aðallega á. Edda hefst með formála þar sem greint er frá för Óðins og ása frá Tróju til Norðurlanda þar sem þeir eru teknir í guðatölu. Óðinn sest að í Sigtúnum í Svíþjóð.
Næsti hluti Eddu er Gylfaginning þar sem sagt er frá því að Gylfi konungur í Svíþjóð heimsækir æsi og fær frá þeim goðafræðilegan fróðleik. Þar er sagt frá ásum og vönum, upphafi heimsins og Ragnarökum. Vitnað er í eddukvæði og þá sérstaklega Völuspá.
Skáldskaparmál taka síðan við og þar er markmiðið að kenna skáldum að yrkja með kenningum og heitum sem eiga sér undirstöðu í goðafræði og hetjusögum. Eddu lýkur síðan með Háttatali sem Snorri Sturluson orti um Hákon konung og Skúla jarl. Í Háttatali eru sýndir margvíslegir bragarhættir og stílbrögð.
Konungsbók lýkur ekki með Háttatali heldur taka þar við í lokin tvö kvæði. Fyrst er Jómsvíkingadrápa eftir Bjarna Kolbeinsson, biskup í Orkneyjum. Síðast er Málsháttakvæði þar sem ýmis spakmæli eru fléttuð saman í rímað kvæði. Þar eru til dæmis þessar línur:

Skammæ þykja ófin öll.
Ekki margt er verra en tröll.


Í Málsháttakvæði er nokkuð um orðmyndir sem eru óvenjulegar í íslensku og hafa ýmis rök verið færð að því að kvæðið sé orkneyskt að uppruna eins og það sem á undan fer í handritinu.
Konungsbók er rituð með höndum tveggja skrifara. Annar hefur skrifað mestalla bókina en hinn hefur skrifað kvæðið Haustlöng á blaði 25v. Aðalskrifarinn hefur einnig ritað annað varðveitt handrit – AM 68 fol. en á því er Ólafs saga helga. Hann hefur verið atvinnumaður í greininni og skriftin er vönduð. Konungsbók er þó ekki íburðarmikið handrit, það er óskreytt og með hóflegum spássíum.
Það fyrsta sem vitað er með vissu um ferðir Konungsbókar er að Brynjólfur biskup Sveinsson keypti handritið 31. janúar 1640 af Magnúsi Gunnlaugssyni í Skálholti. Biskupinn sendi síðan Friðriki þriðja Danakonungi handritið að gjöf 1662. Um tíma var handritið talið glatað og þegar Rasmus Rask gaf út Snorra-Eddu í heild í fyrsta sinn 1818 varð hann að styðjast við afrit. Bókin kom svo aftur í leitirnar.

©2021 Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum
  • Handrit
  • Myndir
    • Myndir af handritum
    • Myndir af apógröfum
  • Handritin til barnanna
  • Helgafell
  • Meira
    • Kennsluefni >
      • Sýnisbók íslenskrar skriftar
    • ​​Iceland Legal Manuscripts Research Network
    • Orð og tunga >
      • Orð og tunga 6
      • Orð og tunga 7
      • Orð og tunga 11
      • Orð og tunga 12
      • Orð og tunga 13